Fréttablaðið.is hóf göngu sína fyrir einu ári. Vefmiðillinn hefur unnið sér sess á íslenskum fjölmiðlamarkaði á þessum skamma tíma. Hátt í fjörutíu þúsund fréttir hafa verið skrifaðar á vefinn.

Fréttablaðið.is fagnar í dag eins árs afmæli sínu. Vefmiðillinn hefur á þessum tíma sótt í sig veðrið og unnið sér sess á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Markmiðið er og verður að halda áfram að færa lesendum traustar og áreiðanlegar fréttir, öllum stundum dags.
Tæplega fjörutíu þúsund fréttir
Vefmiðillinn hefur hlotið afar góðar viðtökur allt frá fyrsta degi, þann 7.febrúar 2018, en hann var opnaður með formlegum hætti af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra rúmri viku síðar, eða 15. febrúar 2018. Alls hafa um 36.700 greinar verið ritaðar á vefinn á þessu eina ári.
Hugmyndin um stofnun Fréttablaðsins.is var fyrst rædd árið 2016 og kom svo til framkvæmda árið 2017 þegar fyrirséð var að Fréttablaðið og Vísir.is yrðu aðskilin, en miðlarnir tveir höfðu haldist í hendur frá árinu 2004.
Gríðarmikil vinna var lögð í hönnun og þróun vefsins þar sem áhersla var lögð á einfaldleika og gott aðgengi, og komu fjölmargir að verkefninu, bæði hér heima og erlendis.
Í áranna rás
Fréttablaðið þekkja langflestir landsmenn. Blaðið hefur ratað í póstkassa þeirra flestra í tæpa tvo áratugi og þannig skipað sér sess í lífi Íslendinga. Blaðinu er dreift á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri auk þess sem sérstaka Fréttablaðskassa er að finna víða um land.
Að auki má nálgast allar fréttir blaðsins, og miklu meira til, á hinum eins árs gamla vef, www.frettabladid.is.
Fréttablaðið vill nýta tækifærið á þessum tímamótum til þess að þakka samfylgina á árinu og mun kappkosta við að halda áfram að færa fólki fréttir í bland við afþreyingu af ýmsum toga. Þeir sem vilja koma ábendingum á framfæri geta gert það í gegnum netfangið ritstjorn@frettabladid.is eða í síma 550-5000.
Hluta af mest lesnu fréttum ársins er að finna hér að neðan, eftir flokkum og efnistökum.
Innlendar fréttir 2018
Erlendar fréttir 2018
Vísindaannáll 2018
Náttúrulega Ísland á áramótum
20 helstu ummæli ársins 2018
2018 versta árið á mörkuðum