
Davíð Stefánsson hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hann tekur við sem annar tveggja ritstjóra blaðsins frá 1. júní.
Davíð varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1985, stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands 1995 og hlaut meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá Harvard háskóla, John F. Kennedy School of Government, Bandaríkjum árið 1997.
Davíð hefur rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki frá árinu 2009 einkum á sviði viðskipta- og verkefnaþróunar með áherslu á endurnýjanlega orku. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki, bankar, fjárfestingasjóðir og orkufyrirtæki í Norður og Suður Ameríku, Afríku, Evrópu og Asíu auk Íslands.
„Það er mikil og skemmtileg áskorun að takast á við ritstjórastarf langmest lesna blaðs landsins. Á Fréttablaðinu vinnur mjög hæfileikaríkt og útsjónarsamt fólk. Í samvinnu við þann sterka hóp vonast ég til að efla blaðið enn frekar sem helsta dagblað landsins,“ segir Davíð.